Skip to main content

Desember 2022 - Ávarp forseta SIE - Það dugar ekkert hálfkák

Lukewarm1

Það dugar ekkert hálfkák (e)

Eitt sinn er ég ók ásamt dóttur minni langa leið, sem mér fannst engan endi ætla að taka, vitnaði hún í orð Roald Dahl „Það dugar ekkert hálfkák“ e. „Lukewarm is not good“. Hún sagði „Þú mátt ekki gefast upp á lokametrunum mamma“. Síðan þá hef ég kunnað að meta þessa tilvitnun og oft vitnað í hana.

Ég sé fyrir mér vinnu Soroptimista um alla Evrópu. Ég átta mig á því að á ákveðnu augnabliki gætir þú efast um hvort hún sé fyrirhafnarinnar virði, metin og viðurkennd og hvort hægt sé að ná settum markmiðum. Ég hvet þig til að halda áfram í anda tilvitnunar Roalds Dahls með því að sannfæra þig um það að þú hefur sannarlega lagt mikið að mörkum.

Á fyrra ári mínu sem forseti Soroptimistasambands Evrópu hélt ég ræður á fjórum tungumálum í níu mismunandi löndum, tók þátt í pallborðsumræðum og fagnaði háttsettum frummælendum í löndum þar sem Soroptimistar starfa. Þetta var hvetjandi og uppörvandi. Hins vegar var innblástur minn og eldmóður sannarlega ekki drifinn af því sem gerðist í sviðsljósinu. Það voru Soroptimistar meðal áhorfenda og samskipti við þá sem veittu mér þennan kraft. Fyrir það er ég þakklát.

Þegar þú vekur áhuga annarra á verkefni þínu, skaltu ganga alla leið. Ekki hætta í miðjum klíðum, þú ert skuldbundin samverkamönnum þínum og þér sjálfri.

Ekki hægja á þér, gefðu frekar í. Ástríðufullur eldmóður þinn er smitandi og það er oft allt sem þarf. Ekki gleyma að Soroptimistar eru alþjóðleg samtök „alheimsrödd kvenna“. Við erum 30.000 talsins í Evrópu og það heyrist betur í okkur ef við stöndum saman en þannig aukum við sýnileika Soroptimistasamtakanna.

Ef þú efast um að þú náir að ljúka verkinu, skaltu biðja aðstoðarmann þinn að taka við stjórninni svo þið náið markmiði ykkar í sameiningu. Því saman höfum við drifkraftinn til að tala fyrir réttindum kvenna og stúlkna.

Kærar þakkir til Soroptimista sem ég hitti á árinu og gáfu mér orku til að ljúka því og horfa fram á við!

Ykkar einlæg,

Carolien Demey

SIE President 2021-2023