Skip to main content

Haustfundur Soroptimista 2019

Haustfundur Soroptimistasambands Íslands var haldinn að Laugarbakka í Miðfirði helgina 27.-29. september 2019. Fundinn sóttu rúmlega 150 konur víðs vegar að af landinu.

Á haustfundinum voru haldnir fróðlegir fyrirlestrar meðal annars um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hvernig verkefni soroptimista falla undir þau. Unnið var í hópum að ýmsum verkefnum, svo sem hvernig verkefni klúbbanna falla undir heimsmarkmiðin. Kynnt voru áhersluatriði frá Evrópu- og alþjóðasambandi soroptimista og spurningar ræddar í hópum um málefni sem varða innri starfsemi sambandsins. Ekki má svo gleyma fundum embættismanna klúbba.

Fréttir voru sagðar af sendifulltrúafundi Evrópusambandsins, sem að þessu sinni var haldinn í Zagreb í Króatíu í lok maí. Þar fékk einn íslenskur klúbbur, Soroptimistaklúbbur Kópavogs, verðlaun fyrir besta verkefni í flokki „Winner Economic Empowerment“. Að auki fékk íslenska landssambandið viðurkenningu fyrir fjölgun félaga.

Einnig var sagt frá heimsþingi soroptimista sem haldið er á fjögurra ára fresti og var haldið að þessu sinni í Kuala Lumpur í Malasíu í júlí 2019. Níu íslenskar konur sóttu þingið að þessu sinni.

Fyrsti íslenski soroptimistaklúbburinn var stofnaður í Reykjavík 1959 og landssambandið 1974. Soroptimistar á Íslandi hafa frá stofnun komið að fjölmörgum góðum verkefnum, en fyrstu árin voru þau unnin í hljóði og fáir vissu hvað þessi samtök stóðu fyrir. Í dag er þetta breytt, soroptimistar vilja vera sýnilegar og vinna áfram að bættri stöðu kvenna og stúlkna um heim allan fyrir allra augum.

Í Soroptimistasambandi Íslands eru 626 félagskonur í 19 klúbbum um allt land.