Dr. Sigrún Klara Hannesdóttir

 „Enginn getur hjálpað öllum – en allir geta hjálpað einhverjum“

SigrunKlaraHannesdottirDr. Sigrún Klara Hannesdóttir fékk á dögunum viðurkenningu frá Soroptimistum í tilefni 100 afmælis samtakanna.

Sigrún Klara fæddist á Seyðisfirði 9.10. 1943 og ólst þar upp. Hún lauk landsprófi á Eiðum, stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri, BA-prófi í ensku, íslensku og bókasafnsfræði frá HÍ, MSLS-prófi í bókasafnsfræði frá Wayne State University í Detroit í Michigan í Bandaríkjunum á Fulbright styrk og Ph.D. prófi frá University of Chicago, 1987.

Ferillinn er fjölbreyttur og hún hefur komið víða við. Nám var fjármagnað með síldarsöltun og fiskvinnslu á Seyðisfirði og eftir nám vann hún t.d. sem upplýsingabókavörður í Michigan, Bandaríkjunum, ráðgjafi fyrir Bank of Inter-American Development í Perú í Suður Ameríku, skólasafnafulltrúi Reykjavíkurborgar, lektor, dósent og prófessor við Háskóla Íslands, framkvæmdastjóri NORDINFO í Helsinki og loks landsbókavörður – fyrst kvenna. Hún hefur skrifað og gefið út um 400 greinar og flutt fyrirlestra víða um heim.

Sigrún var tekin inn í Soroptimistaklúbb Reykjavíkur árið 1984 og hefur verið virk allar götur síðan. Sérstakt áhugamál hennar hefur verið starfsemi Styrktarsjóðs klúbbsins sem hefur að meginmarkmiði að styrkja konur bæði til náms og þjálfunar. Klúbburinn, líkt og aðrir Soroptimistaklúbbar á heimsvísu, leggur áherslu að efla konur og stúlkur með því að skapa þeim öruggt og heimsusamlegt umhverfi, efla leiðtogahæfni þeirra og hagnýta þekkingu til framtíðar.

Hennar einkaframtak er stofnun og rekstur hjálparsamtakanna Vina Perú frá 2005 sem styrkir fátæk börn í Perú þannig að þau fái nóg að borða, komist í skóla, njóti lestrarkennslu og hafi bækur til að lesa. M.a. stofnaði hún skólabókasafn í fátækrahverfinu Quebrada verde sem er útborg höfuðborgarinnar Lima.

Hún hefur fengið margvíslega viðurkenningar, s.s. Fálkaorðuna fyrir framlag sitt til bókasafns- og upplýsingafræða árið 2003, var gerð að heiðursfélaga Upplýsingar – félags bókasafns og upplýsingarfræða árið 2007, Distinguished Alumna Award frá Wayne State University 2009, European Achievement Award frá Delta Kappa Gamma, og International Achievement Award frá sömu samtökum 2009.

Hún hefur ferðast til 130 landa og heimsótt allar heimsálfurnar.
Sonur Sigrúnar er Hallgrímur Indriðason, fréttamaður hjá RÚV, kona hans er Rósa Lyng Svavarsdóttir, kennari við Áslandsskóla og eru dætur þeirra Líf og Sif.

Foreldrar Sigrúnar Klöru voru Hannes Jónsson (1905-1986) og Sigríður Jóhannesdóttir (1907-2002) á Seyðisfirði.

Meira á Wikipedia

 

Soroptimistasamband Íslands
Hamraborg 10, 200 Kópavogi

 

Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Efst á síðu